Flestir tengja hjólreiðar við sumar og sól. En þeim fjölgar árlega sem velja að glíma við vetur konung og fara áfram leiða sinna á reiðhjóli.

Það er ákveðinn lífsstíll að taka slíkri ögrun. Flestir sem gera sig klára í vetrarhjólreiðarnar eru með góð ljós á hjólunum sínum, nota gjarna sýnileikafatnað og setja nagladekk á hjólið. Einkum undir framdekkið, því það má ekki skrika til í beygjum. Auðvelt er að gúgla ítarlegar greinar um vetrarhjólreiðar til að lesa sig betur til um „réttu græjurnar“.

Á veturna förum við hægar yfir á hjólinu. Borgaryfirvöld hafa sett metnað sinn í að hreinsa þokkalega snjó af stígunum og þykir Reykjavíkurborg bera af í stígahreinsun á höfuðborgarsvæðinu. Verst virðist ganga að halda hreinu við umferðareyjar og þá gerir maður ráð fyrir því. Fyrir þá sem eru með tvídekkja aftanívagna getur þetta orðið frekar snúið.

Fæst hjólaslys eru skráð í desember og janúar. Líklega bæði vegna þess að færri hjóla og að þeir sem hjóla, eru vanir umferð og kunna vel að stýra sínu ökutæki. 

Sjálf vel ég að eiga alltaf samgöngukort í strætó. Um leið og sú fjárfesting er komin í hús er valið um ólíka ferðamáta þægilegra. Með botnlausum vetrarlægðum er snilld að geta hoppað í strætó hvenær sem hentar. Auk þess má taka hjólið með í strætó. 

En nú er þetta alveg að verða gott með vetrarfærðina. Pollýanna þarf líka að fá sólina sína og léttari færð. Þá er svo miklu skemmtilegra að hjóla.

  • Greinin birtist upphaflega í Reykjavík vikublað á vordögum 2015.
  • Myndatexti: Pollýönnur bregða á leik í vetrarfærðinni. Mynd - CSF
|