Ráðstefnur Hjólafærni á Íslandi og Landssamtaka hjólreiðamanna.
Upptökur og glærur af fyrri ráðstefnum eru aðgengilegar á vef LHM:
Hjólum til framtíðar 2019 – og göngum'etta
Hjólum til framtíðar 2018 - Veljum fjölbreytta ferðamáta
Hjólum til framtíðar 2017 - Ánægja og öryggi
Hjólum til framtíðar 2016 - Hjólið og náttúran
Hjólum til framtíðar 2015 - Veljum, blöndum & njótum
Hjólum til framtíðar 2014 - Okkar vegir okkar val - upptökur og slæður
Hjólum til framtíðar 2013 - Réttur barna til hjólreiða - upptökur og slæður
Hjólum til framtíðar 2012 - Rannsóknir og reynsla - upptökur og slæður
Tækifæri í hjólaferðamennsku á Íslandi 2012 - Málþing - upptökur og slæður
Hjólum til framtíðar 2011 - Efling hjólreiða - upptökur og slæður
Svona byrjaði þetta allt saman hjá okkur...
Árið 2010 fóru bæði Sesselja Traustadóttir og Morten Lange til Kaupmannahafnar og tóku þátt í VeloCity global ráðstefnunni. Upp úr þeirri ráðstefnuþátttöku spunnust síðan hugmyndir og tengingar við leiðandi fólk sem starfaði við eflingu hjólreiða um víðan völl.
Strax um haustið kviknaði sú hugmynd að vera með okkar eigin ráðstefnu í Reykjavík. Hjólreiðum óx ásmegin, æ fleiri völdu hjólið til samgangna, sem var eðlilegt; "hið svokallaða hrun" kallaði á ný viðhorf og nýjan lífsstíl almennings í landinu.
Við sóttum um styrk til Reykjavíkurborgar. Þegar hann kom í hús, var ekki aftur snúið. Ákveðið var að halda ráðstefnuna "Hjólum til framtíðar" föstudaginn í Evrópsku samgönguvikunni árið 2011.
Opinberar stofnanir, ráðuneyti, sveitarfélög, fyrirtæki og félagasamtök, tóku höndum saman og við áttum stórskemmtilegn dag saman í Iðnó. Þrír erlendir fyrirlesarar, íslensk erindi og söngur, fylltu dagskrána og að lokum var klikkt út með "Hjólaskálinni", viðurkenning okkar sem stöndum að ráðstefnunni til handa þeim sem skarar fram úr hjólaeflingu - í boði borgarinnar.
Bara örfáum vikum síðar var kominn fullur skriður á undirbúning fyrir málþingið "Tækifæri í hjólaferðamennsku á Íslandi" sem haldið var í húsnæði Eflu að Stórhöfða. Glettilega fjölbreytt dagskrá með erlendum og innlendum erindum, sem urðu jafnframt kveikjan að enn fleiri verkefnum eins og umsókn Íslands að EuroVelo hjólaleiðanetinu.
Haustið 2012 var haldið áfram með Hjólum til framtíðar. Allt gert eins og síðast; erlend og innlend erindi í bland. Þemað var valið Rannsóknir og reynsla.
Árið þar á eftir var hjólreiðaþátttaka barna sett í forgrunn; Réttur barna til hjólreiða. Það var valið út frá VeloCity global ráðstefnunni í Vancover, þar sem réttindi barna til hjólreiða voru undirstrikuð með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Löngu þarft og mikilvægt verkefni á Íslandi; að skoða hvernig hlúð er að börnum á hjólum og þeim tryggður rétturinn til að njóta þess að hjóla.
Á síðasta ári fylgdum við þema Evrópsku samgönguvikunnar; Okkar vegir - okkar val. Klaus Bondam, formaður Cyklisforbundet í Danmörku, var aðalgestur ráðstefnunnar. Honum og hinum tveimur erlendu gestum okkar var sannarlega vel tekið og fóru þau öll á tvær ráðstefnur með erindi sín; alls þrjár ólíkar ráðstefnur í samgönguvikunni, tileinkaðar orku og samgöngum. Borgarstjóri Reykjavíkur, Dagur B. Eggertsson, átti einkafund með Bondam - sem var sniðugt hjá Degi; Klaus Bondam var nefnilega umhverfisborgarstjóri í Kaupmannahöfn í kringum 2010 og átti mörg góð ráð uppi í erminni handa Reykjavíkurborgarstjóranum.
Allar þessar ráðstefnur hafa verið teknar upp, bæði með hljóði og eins hefur Ferðamálastofa séð til þess að þær hafi verð aðgengilegar á netinu í beinni útsendingu á meðan á þeim stendur. Magnús Bergsson hefur séð um hljóðupptökur og Páll Guðjónsson síðan séð til þess að öll erindin á öllum ráðstefnunum, eru opin og til hlustunar með slæðum höfunda hvers og eins á vef Landssamtaka hjólreiðamanna. Þetta efni er ómetanlegur gagnabanki í allri hugsun og mótun til hjólandi framtíðar.