HÓA byggir á því að rjúfa einangrun og efla lífsgleði vistmanna á hjúkrunarheimilum með því að gefa þeim kost að fara út að hjóla. Hollvinasamtök hjúkrunarheimilanna eða önnur líknarfélög, hafa safnað fyrir flestum hjólunum sem eru komin/á leið til landsins og verða hjólin eign hjúkrunarheimilanna. Hjólafærni sinnir stuðning við innleiðingu á notkun hjólanna og annast allt utanumhald við að fá þau til landsins, fá niðurfellingu aðflutningsgjalda hjá tollstjóra, útbýr námsefni fyrir verðandi hjólara, heldur námskeið og skipuleggur þjálfun hjólaranna, sinnir heimasíðunni, kynningum, útbýr prentefni og nú á komandi misseri – vinnur að íslenskun og innleiðingu á góðu bókunarkerfi fyrir hjólin á hverjum stað.

Hjólað óháð aldri (HÓA) er komið til að vera á Íslandi.

Einn hjólastjóri er ábyrgur fyrir aðalumsjón hjólsins á hverjum stað og svo eru þjálfaðir Hjólarar sem eru ýmisst starfsmenn hjúkrunarheimilanna, sjálfboðaliðar úr nágrenni þeirra eða aðstandendur vistmanna.Hjólin þrjú voru snemmendis pöntuð í sitthvora áttina. Eitt fór í Mörkina, annað í Sóltún og það þriðja í Sunnuhlíð í Kópavogi. Iðju- og sjúkraþjálfarar af heimilunum, mynduðu innleiðingarteymi með Hjólafærni til að undirbúa og fara yfir ýmsa þætti er snúa að HÓA í „praxis“. Geymsla á hjólunum, kynningar innanhúss, tryggingamál, þagnaskyldu og fleira og fleira.

Kynningar Hjólafærni hafa verið með ýmsum hætti. Kynning fyrir 500 sjúkraþjálfa á Degi sjúkraþjálfunar, heimsókn í Alzheimerkaffi á aðventunni, farið með hjól á Droplaugarstaði, á Höfða á Akranesi, í Ísafold í Garðabæ og við vorum stolt af því að hafa Dorthe Pedersen, eina af stofnendum CUA, aðalfyrirlesara á Hjólum til framtíðar ráðstefnunni í Evrópsku samgönguvikunni í september sl. Erindi hennar er aðgengilegt á heimasíðu Landssamtaka hjólreiðamanna á þessum tengli:

http://www.lhm.is/dorthe-pedersen-hjolad-ohad-aldri

Hjólafærni hefur unnið íslenska heimasíðu fyrir HÓA og er með virka Facebook síðu með rétt um 1.000 like. Fjölmargar greinar í íslenskum dagblöðum, tímaritum og á vefmiðlum hafa verið skrifaðar í kringum HÓA. Í kvöldfréttatíma RÚV föstudaginn 6. nóvember, vann Þórdís Arnljótsdóttir einstaklega fallega frétt um komu fyrstu hjólanna – frétt sem fékk gríðarlegt áhorf um allt land og varð líklega til þess að á vordögum 2016 fóru hjól á Höfn, Seyðisfjörð, Sauðárkrók, Ísafjörð, Akranes og í Garðabæ.

Á haustdögum eigum við enn von á fleiri hjólum. Þá koma 4 TRIO hjól til landsins, sem eru aðeins frábrugðin Christaniahjólunum; örlítið breiðari sæti og þægilegra að setjast í hjólin. Þessi hjól fara til Dalvíkur, Selfoss, Húsavík og eitt á að vera á Höfuðborgarsvæðinu, í umsjón Hjólafærni með opinn aðgang fyrir alla sem vlija komast með vini sína út að hjóla, sem ekki geta lengur sjálfir hjólað fyrir eigin orku. 

Þessi hjól eru öll með hjálparmotor, svo það er lítið átak sem fylgir því að hjóla þessi hjól. Ánægjan hins vegar, er ómæld - bæði hjá þeim sem njóta þess að vera farþegar og ekki síður hjá sjálfum Hjólurunum. 

Til þess að taka þátt í starfi Hjólað óháð aldri er best að senda tölvupóst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. - eða hringja í s. 864 2776 - eða skrá sig sem "pilot" á gobooking.bike

Hjólað óháð aldri - skammstafað HÓA - á eigin heimasíðu: www.hoa.is

Einnig erum við með "Like" síðu á Facebook - Hjólað óháð aldri á Facebook

Og sameiginlega umræðu og reynslusíðu, einnig á Facebook, þar sem Hjólarar og aðstandendur Hjólað óháð aldri um allt land, geta spjallað saman og miðlað reynslu sinni - Hjólað óháð aldri - hjólarar