Skemmtilegir og fræðandi fyrirlestrar
Um árabil hefur Hjólafærni á Íslandi boðið fram skemmtilega og fræðandi fyrirlestra sem snerta hjólamenningu. Vinsælasti fyrirlesturinn okkar frá upphafi heitir Samgönguhjólreiðar, hugarfar og menning. Hann passar einkar vel með léttum hádegisverði á vinnustöðum, á kvöldfund félagasamtaka eða til kennslu í framhaldsskólum. Fjölmargir aðrir fyrirlestrar eru einnig í boði. Rétt er að gera ráð fyrir um 45 mín fyrir ræðumanninn og nokkrar aukamínútur ef fundargestir eru líflegir í umræðum. Gott er að hafa aðgang að tölvu með usb tengi og skjávarpa. Hafið samband við Hjólafærni í s. 864 2776 eða sendið tölvupóst á
Samgönguhjólreiðar, hugarfar og menning.
Samvinna í umferð, hindurvitni hjólreiða, hjólaleiðir, hjólamenning, hjólafærni, aðbúnaður fyrir hjól, samgöngusamningar og fjölbreytni í samgöngum er spunnið saman á léttum nótum. Tilvalið á starfsmannafundi, í Lionsklúbbinn og á foreldrafundina. Fyrirlesari Sesselja Traustadóttir eða Árni Davíðsson.
Óbyggðirnar kalla og suður Jakobsstíginn.
Undur íslenskrar náttúru og Jakobsstígurinn frá Frakklandi til Santiago de Compostella á Spáni eru Hauki vel kunn. Hann segir skemmtilega frá og fer yfir undirbúning fyrir langferðir á hjóli, hvort heldur er innanlands eða utan. Hver er munurinn á að hjóla á Íslandi og erlendis? Hvert sem farið er, er lykillinn að vel heppnaðri hjólaferð, góður undirbúningur. Fyrirlesari Haukur Eggertsson.
Reiðhjólið.
Fyrirlestur og sýnikennsla um reiðhjólið. Farið yfir val á hjóli og að stilla stell, hnakk og stýri. Helsta viðhald; að smyrja, þrífa, pumpa, skipta um bremsupúða, stilla gíra. Útbúnað á reiðhjólinu, val á fatnaði, vetrarhjólreiðar. Leiðaval. Þetta er praktiískur fyrirlestur sem hentar vinnustöðum vel í hádeginu eða í fræðslutíma. Notað er reiðhjól sem sýnitæki og því ekki þörf á myndvarpa eða tækjum. Fyrirlesari Árni Davíðsson eða NN.
Leiðsögn Dr. Bæk.
Dr. Bæk mætir með tæki og tól og leiðbeinir um helstu vorverk hjólreiðamannsins með sýnikennslu og óformlegum fyrirlestri við hjólið. Sýndar eru þrif og stillingar á stelli, bremsum og gírum og spurningum svarað. Þátttakendur geta mætt með sín eigin hjól og geta fengið leiðsögn í að gera hlutina sjálfir eða þá ástandsvottorð um heilsu hjólsins frá doktornum. Leiðbeinandi er Árni Davíðsson eða NN.
Lagarammi um hjólreiðar.
Sérhæfður fyrirlestur um lagarammann um hjólreiðar. Hvaða lög gilda og hvað segja þau. Munurinn á íslenskum lögum og helstu erlendu lögum. Hvar liggur óvissa í lagatúlkun. Fyrirlesari Árni Davíðsson.