Reykjavík er frábær hjólaborg. Það er svo gott að fara á milli staða á hjólinu og vita að maður leggur alltaf ökutækinu rétt upp við innganginn. Aldrei að eyða tíma í umferðaröngþveiti eða í leit að stæði, laus við að menga og uppfylli í leiðinni hreyfiviðmið landlæknis. Við sem lítið nennum að hreyfa okkur getum varla slegið fleiri flugur í einu höggi. Þurfum eiginlega ekki að fara í ræktina, bara smá út að hjóla.

Öllu einfaldara getur lífið varla orðið og heppin ég: Má mala svolítið um hjólreiðar í Reykjavík, vikublaðið fram á vorið.

Byrjum á hausnum. Hann er lykillinn að allri velferð í umferðinni. Ekkert getur tryggt velferð mína með sama hætti og hausinn á mér. Engar bremsur, hjálmur, vesti, ljós eða neitt annað. Nei, ég þarf bara að nota á mér hausinn. Augu og eyru er frábær öryggistæki og ég nota þau óspart á ferðinni. Í samvinnu við aðra virka vegfarendur, nota ég munninn. Býð góðan daginn og þakka fyrir ef einhver stígur úr veginum fyrir mér.

Þegar kemur að vegfarendum sem keyra bíla, þá beini ég augum mínum að bílstjórasætinu og reyni að ná augnsambandi við þann sem keyrir. Fólk er upp til hópa sammála um að vilja láta umferðina ganga vel. Á reiðhjóli upplifi ég oft frábæra samvinnu við aðra vegfarendur. Bílstjórum fjölgar daglega sem stöðva ökutæki sín tímanlega til þess að tryggja að ég komist greiðlega yfir þveranir á götunum. Mikið er ég þeim þakklát fyrir þeirra hlýja hug. Ég held augnsambandi við þá, brosi, nikka eða veifa.

Það er gott að hafa hausinn með á ferðinni.

  • Greinin birtist upphaflega í Reykjavík vikublað á vordögum 2015.
  • Myndatexti: Augnsamband er lykill að farsæld í umferðinni. Mynd - ST

|