En ökutækið reiðhjól á heima á götunni. Þar hjólum við í víkjandi stöðu, sem er rétt um 1 m frá vegkantinum, hægra megin. Þannig erum við sýnilegri annarri umferð og höfum svolítið öryggisrými á götunni sem við getum hörfað í ef þrengt er að okkur. Í víkjandi stöðu er auðvelt fyrir önnur ökutæki að fara fram úr hjólandi vegfarendum.
Öðru hvoru færum við okkur í ríkjandi stöðu. Þá tökum við stöðu á akreininni eins og við séum á bíl eða mótorhjóli. Þetta gerum við t.d. áður en kemur að gatnamótum, á leið í gegnum hringtorg eða ef þrengingar eru á götunni. Einnig þegar hjólað er framhjá kyrrstæðum bílum þar sem bílhurð getur óvænt oppnast eða bíll bakkað út úr stæði, þá erum við líka í ríkjandi stöðu.
Með ríkjandi stöðu tryggjum við sýnileika okkar í umferð og um leið eigið öryggi. Um leið og aðstæður leyfa, færum við okkur aftur í víkjandi stöðu.
Til þess að færa sig úr víkjandi stöðu í ríkjandi stöðu, notum við augnsamband og bendingar með vinstri hönd til samvinnu við aðra vegfarendur. Samt ævinlega viðbúin að hörfa, ef það er það sem þarf til að tryggja okkar eigið öryggi.
Götur á Íslandi eru almennt það rúmgóðar að þar er pláss fyrir okkur öll. Fyrir hvert hjól í umferðinni má segja að sé einum bíl færra. Allir vinna. Njótum þess að hjóla.
Áður birt í Reykjavík - vikublað á vordögum 2015
Mynd: Páll Guðjónsson www.hjolareidar.is