Listasafn Reykjavíkur mun bjóða upp á hjólaratleik sem byrjar við Hörpuna; ströndin til austurs og fylgja síðan leiðbeiningunum. Þetta er tilvalin leikur fyrir alla fjölskylduna þar sem hjólað verður á milli útilistaverka bæjarins eftir stígakerfi borgarinnar.

Á Hörpuplaninu verður boðið upp á hjólaþrautabraut og umferðamerkjarýni í samvinnu Vegagerðarinnar og Hjólafærni á Íslandi. Allir geta hitað upp fyrir ratleikinn með því að hjóla þrautabrautina og rýna um leið í nokkur vel valin umferðamerki til þess að rifja upp hvað þau heita og til hvers þau eru.

Laugardaginn 27. apríl verður Dr. Bæk á Hörputorginu og býður hjólandi gestum upp á fría ástandsskoðun reiðhjóla frá kl. 11 – 15. Á sama tíma verður gestum boðið að kríta óska hjólaleiðina í gegnum Hörputorgið.

Ratleikurinn verður aðgengilegur alla daga Barnamenningarhátíðarinnar fyrir áhugasama að gera á eigin vegum. Þátttökuspjöld eru afhent í afgreiðslu Hörpu. Þeim má síðan skila aftur í afgreiðslu Hörpu eða í afgreiðslu Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsinu. Útdráttarverðlaun verða afhent í lok Barnamenningarhátíðar.

Hjólaleiðsögn á vegum Listasafns Reykjavíkur um styttur bæjarins verður frá Hörpu kl. 13 sunnudaginn 28. apríl.