Hjólafærni verður með kennara á þemadögum Háskóla Íslands þann 12. júni 2014. Hér að neðan er kynning á þemadögum um hjólreiðar og vísindi.

 Hjólaakademían – þemadagur um hjólreiðar og vísindi

Það er gaman að hjóla! Þetta vita auðvitað flestir krakkar. En er hægt að rannsaka reiðhjól og hjólreiðar með aðferðum vísindanna?

 

Á sérstökum þemadegi verður þetta undratæki, reiðhjólið, skoðað frá sjónarhóli margs konar vísinda, t.d. landfræði, verkfræði, skipulagsfræði og lýðheilsufræði. Spurningar sem leitað verður svara við eru fjölmargar: Hver fann upp hjólið? Hvaða mismunandi  útfærslur af hönnun reiðhjóla eru til? Hve mikla orku þarf til að knýja reiðhjól í samanburði við önnur farartæki? Hvernig virka gírar? Hvaða áhrif hefur umhverfið á notkun reiðhjóla? Hvaða vöðva líkamans notum við þegar við hjólum? Af hverju eru hjólreiðar svona holl hreyfing? Hvar er reiðhjólið mikilvægast sem samgöngutæki? Er hægt að fara í langt ferðalag á hjóli?

 

Þemadagurinn byrjar og endar í náttúrufræðahúsinu Öskju. Nemendur hjóla líka í bygginguna Stapa, þar sem þrek þeirra verður mælt. Gert er ráð fyrir að þátttakendur komi á hjóli eða hafi það með sér. Munið eftir hjálminum. Nemendum gefst kostur á að yfirfara sín eigin hjól með aðstoð hins eldklára Dr. Bæk.

 

Dagskrá:
9:00 - 9:45 Hver fann upp hjólið? Hvar er hjólað?
9:45 - 10:30 Hvers konar vél er reiðhjólið?
10:30 - 10:50 Hlé
10:50 - 11:35 Hvernig kemst ég hjólandi alla leið til Langtíburtistan?
11:35 - 12:20 Hvar get ég helst hjólað í Reykjavík?
12:20 - 13:50 Dr. Bæk og hjólastillingar // Þrekmælingar // Hádegismatur
13:50 - 14:30 Er gott fyrir líkamann að hjóla?
14:30 - 15:00 Er erfitt að fara í ferðalag á hjóli?

 

Kennarar: Karl Benediktsson, prófessor í mannvistarlandfræði við Háskóla Íslands, og fleiri.

|